Skálmöld
Ýdalir



1. Ýr


2. Ýdalir

Ýdalir standa við endalaust fljót
Ullur þá reisti og byggði
Fjallgarður skýlir og fjörður í mót
Fallegt hvert strá, sérhver þúfa og grjót
Þúsundir búa og þakka hvert dægur
Þjóð sinni hamingju tryggði
Ullur er guðlegur, fagur og frægur
Forgöngumaður og dómari vægur

Bundin að engu þar bjuggu í friði
Bændur sem enginn styggði
Ræktuðu landið og rótgróna siði
Ríkti þar Ullur með fylgdarliði
Rænt hefur Ýdölu Níðhöggur nú
Nístandi grætti og hryggði
Runnu þau öll yfir brennandi brú
Börnin í ofboði, Ullur og hjú

Ýdalir standa við endalaust fljót
Ullur þá reisti og byggði
Fjallgarður sviðinn, um fjörð liggur sót
Fallið hvert strá, sérhver þúfa og grjót
Flaug yfir hljóðlátur, fólkið í bóli
Feigðin á borgina skyggði
Vakti þau óður með ísköldu góli
Ullur þá flúði af höfðingjastóli

Finndu þeim skjól, sonur Sifjar
Sorfinn í tímann skurður
Vega þær vandlega klyfjar
Verðandi, Skuld og Urður


3. Urður

Ég er Urður, köld og kæfandi,
kraftur minn yfir öllu er gnæfandi.
Fortíðin orðin, þú færð ekki neinu að breyta.

Reynist þér hvorki sterk né styðjandi,
staulastu áfram götuna biðjandi.
Tíminn er einstigi, trúðu og hættu að leita.

Orðið er orðið, liðið er liðið.
Gróið er gróið og sviðið er sviðið.
Horfið er horfið, farið er farið.

Gert er gert og erkkert skiptir
og ekkert skiptir máli.

...og ekkert skiptir og ekkert skiptir máli.

Hún er vís og okkar elst,
ógn í hennar gjörðum felst.

Urður.

Alltaf eru Urðar vegir
erfiðir og hættulegir.
Enginn breytir hennar háttum,
hún sér þig úr öllum áttum.

Allt er gert og gert er orðið,
göldrótt leggur spil á borðið.
Skuggar lifna, skuggar dvína.
Ekkert skiptir máli.

Urður.

Ég er Urður, köld og kæfandi,
kraftur minn yfir öllu er gnæfandi.
Reynist þér hvorki sterk né styðjandi,
staulastu áfram götuna biðjandi.
Orðið er orðið, liðið er liðið.
Gróið er gróið og sviðið er sviðið.
Horfið er horfið, farið er farið.
Gert er gert og erkkert skiptir máli.

Og ekkert skiptir máli.


4. Ratatoskur

Hlauptu
Hlauptu kjarrið allt um kring.
Farðu
Farðu hratt um lauf og lyng.
Berðu
Berðu fregnir til og frá.
Segðu
Segðu hvað er nú og hvað var þá.

Íkorni sagði við urðar nornir
Eru þá drekarnir himinbornir
Nú hefur hann með nöðruher
Níðhöggur þorpið undir sér

Ullur og fólkið frá ýdölum flýði
Ólaði á sína fætur skíði
Veðurfölnir og Yggdrasils örn
Eftir sér toguðu konur og börn

Ratatoskur frá rótum að krónum
Rennur um askinn á stofni grónum

Allar nætur nagar rætur (Alla daga, allar nætur, annar þeirra nagar rætur)
Hinn í toppum (Situr hinn í háum toppum)
Hleypur loppum (Hleypur skögull fimum loppum)
Herir meiða (Herir vilja hina meiða)
Hræða deyða (Hræða kvelja slá og deyða)
Enginn heimur (Án hans væri enginn heimur)
Himingeimur (Engin jörð né himingeimur)


5. Verðandi

Ég er staður og stund
Stafir mínir eru látlausir og beittir
Ég er gola og grund
Gárur hafsins
Já, ég er allt sem er, allt sem er

Þræðir, bensli og bönd
Bindast saman er flétta ég þér örlög
Höfin, loftið og lönd
Lífið sjálft
Já, það fer eins og það fer

Brunnurinn sýnir málverk og myndir
Menn og guðir eru daufir og blindir
Hún er Verðandi, hún er Verðandi

Ég er Verðandi
Ég er Verðandi
Ég er Verðandi
Ég er Verðandi

Sitjum allar í sátt
Systur mínar hafa bakið hvor í aðra
Fléttum þrefaldan þátt
Þér og öðrum, það fer eins og það fer

Brunnurinn sýnir málverk og myndir
Menn og guðir eru daufir og blindir
Örlög bundin í sælu og syndir
Ég er Verðandi, ég er Verðandi

Ég er Verðandi
Ég er Verðandi
Ég er Verðandi
Ég er Verðandi

Ég er Verðandi (Hún er Verðandi)
Ég er Verðandi
Ég er Verðandi (Hún er Verðandi)
Ég er Verðandi

Hún er Verðandi, velmegun og lán
Hún er Verðandi, útskúfun og smán
Hún er Verðandi, væntumþykja sönn
Hún er Verðandi, hatur, níð og bönn
Hún er Verðandi, vosbúð, hungur, kvöl
Hún er Verðandi, kræsingar og öl
Hún er Verðandi, allt sem núna er
Hún er Verðandi, það fer eins og það fer

Ég er Verðandi


6. Veðurfölnir

Þúsund manns í þéttum hóp,
þjáningar og neyðaróp,
á flótta, á flótta.
Höldum upp á heiðina,
hatrið nærir reiðina,
á flótta, á flótta.

Skíðum burt í skelfingu
Skuldar undir hvelfingu
á flótta, á flótta.
Drekar elta, dauðinn er
dansandi á eftir mér
á flótta, á flótta.

Láttu þau, Frigg, ekki missa móðinn.
Myndu þau gleyma þeim, Freyja og Óðinn?
Þraukið svo hjálpi oss Þór og Mjölnir.
Þýtur um himnana Veðurfölnir.

Birtist hann þar yfir Bæjartjörn,
ber niður vængjunum gríðarstór örn.
Með honum fuglar og fylgdarlið,
fleygja þau reipum niður á við.

Öskrandi hengir hann börnin á bak,
böndin strengjast við vængjatak.
Dregin til frelsis, dregin á skíðum,
dauða og helsi við þannig flýðum.

Á flótta.


7. Skuld

Gleymdu því sem gamalt er
og gleymdu því sem fram hjá fer.
Gleymdu því sem gerðist þá
og gleymdu því sem færist frá.

Skuld.

Geymdu það sem gagnast vel
og geymdu það sem hrekur Hel.
Geymdu það sem gleður þig
og geymdu það sem sannar sig.

Dreymdu allt sem deyfir kvöl
og dreymdu allt sem bætir böl.
Dreymdu allt sem dugar best
og dreymdu allt sem metur mest.

Skuld.

Framtíð ráðum, ekki er
yfir nokkur vafi.
Samtíð spáðum, þagnar þver,
þráin okkur hafi.

Gleymdu.
Geymdu.
Dreymdu.

Hvorki guð né menn
vita líf sitt enn.
Hvorki guð né menn.

Sestu niður við Urðarbrunninn.


8. Níðhöggur

Kveður vísu draumadís,
dagur rís í frosnum móanum.
Króknar sálir kveikja bál,
kneyfa skal og syngja með spóanum.

Þegar hitinn þíðir vit,
þykkur biti fyllir magana.
Hér á bóga báða nóg,
breiður skógur umlykur hagana.

Ýviður er í boga bestur,
beittar tálgum eiturörvar.
Níðhöggur, sá grimmi gestur,
gefur eftir, flýr og hörfar.

Dregin erum, fuglinn fer
fram hjá sveru urðargrjótunum.
Gegnum stríða hörkuhríð
höfum skíðin bundin á fótunum.

Öllu gleymum, horfum heim,
hann þar sveimar einn með skörfunum.
Bogar svigna, lækur lygn,
látum rigna yfir hann örvunum.

Flýgur inn með fuglager,
feigðareldur bjartur logar.
Grandað enginn getur mér,
geiga allir þínir bogar.

Skíðar yfir skaraband,
skalt þú núna deyja, Ullur.
Dalir þínir draumaland,
dauðinn verður tregafullur.

Skörp er lund og skelfur grund,
skíðum undir klakaflekanum.
Víð þar brjótum væng og fót,
vinir skjóta hart að drekanum.

Óðum drekans eyðist þrek,
undir tekur fjalls í sölunum.
Heyrist gnýr og Höggur flýr,
hrakti Ýr hann burtu úr Dölunum.

Ýr í Dölunum.


9. Ullur

Ýdalir standa við fagurt fljót,
fjörðurinn brosir okkur mót.
Ullur þarna býr.
Vorið er komið, veturinn fer,
vindurinn fallega kveðju ber.
Vakir yfir Ýr.

Dáinn horfir inn dalinn á fuglafjöld,
Dvalinn liggur og sefur því nú er kvöld.
Duraþrór og Duneyrr bíta,
dásamlegt er allt á að líta.
Ullur þarna býr.

Örlaganornir við Urðarbrunn
Ýdali byggja á traustan grunn.
Ullur þarna býr.
Urðar fer stækkandi völundarvefur,
Verðandi brosir en Skuld, hún sefur.
Vakir yfir Ýr.

Dáinn horfir inn dalinn og allt er hljótt,
Dvalinn liggur og sefur því nú er nótt.
Duraþrór og Duneyrr bíta,
dásamlegt er allt á að líta.
Ullur þarna býr.

Örlaga- og álfamær,
dansaðu við mig í nótt.
Enginn veit hver örlög fær,
dansaðu við mig í nótt.
Líttu upp því lífið er hér,
láttu þig dreyma og komdu með mér.
Örlaga- og álfamær,
dansaðu við mig í nótt.

Lítið eigum leyndarmál,
dansaðu við mig í nótt.
Eigðu með mér eina skál,
dansaðu við mig í nótt.
Líttu upp því lífið er hér,
láttu þig dreyma og komdu með mér.
Lítið eigum leyndarmál,
dansaðu við mig í nótt.

Fögnum meðan finnum til,
dansaðu við mig í nótt.
Þessa stund með þér ég vil,
dansaðu við mig í nótt.
Líttu upp því lífið er hér,
láttu þig dreyma og komdu með mér.
Fögnum meðan finnum til,
dansaðu við mig í nótt.

Leikum okkur lítið eitt,
dansaðu við mig í nótt.
Og við verðum aldrei þreytt,
dansaðu við mig í nótt.
Líttu upp því lífið er hér,
láttu þig dreyma og komdu með mér.
Leikum okkur lítið eitt,
dansaðu við mig í nótt.



Lyrics in plain text format



Main Page Bands Page Links Statistics Trading list Forum Email Zenial